Sýknudómur Héraðsdóms Austurlands

Yfirlýsing 29.6.2018

Móðir Jörð sýknuð af ákæru

Í dómi Héraðsdóms Austurlands, frá 20. júní sl. voru  Eymundur Magnússon og Móðir Jörð sýknuð af öllum ákæruliðum í máli sem  Lögreglugstjórinn á Austurlandi höfðaði en þar var félaginu gert að sök að hafa ráðið útlendinga í vinnu, 3 ungmenni frá Bandaríkjunum sem tóku þátt í störfum búsins á vegum samtakanna WWOOF, World Wide Opportunties on Organic farms. Landsréttur staðfesti dóminn í október 2019.

Rangfærslur í fréttum RÚV

Í kvöldfréttum RÚV mánudaginn 25. júní er fjallað um dóminn og staðhæft að WWOOF séu samtök lífrænna framleiðenda.  Þetta er ekki rétt.  Samtökin eru sjálfstæð og tilvist þeirra á forsendum þeirra einstaklinga sem óska eftir að heimsækja lífræn bú.

Í viðtali við RÚV segir Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ  “Mat mitt er það að mv þá nákvæmu lýsingu sem er í nýju lögunum þá sé nokkuð ljóst að sjálfboðaliðastarfsemi svipuð og sú sem fjallað er um í þessum dómi…,  yrði talið refsivert skv nýju lögunum”

Við sjáum ekki að það sé hægt sé að halda því fram að dómur um sams konar efni færi á annan veg  ef sams konar atburðir  hefðu átt sér stað  eftir  gildistöku lagabreytingarinnar   1. janúar 2017.   Nýfallinn sýknudómur Héraðsdóms Austurlands er afdráttarlaus  og þar er ekki fallist á að umrædd ungmenni hafi verið ráðin til starfa  „… í þeim skilningi að til vinnuréttarsambands hafi stofnast þeirra í millum á því stutta tímaskeiði sem tiltekið hefur verið..” líkt og segir í dómnum.   Því eiga þessi ummæli ekki við.   Auk þess kemur ekki fram í lagabreytingunni að skv. henni sé sjálfboðavinna  sérstaklega óheimil í landbúnaði eins og lögfræðingurinn hélt fram í viðtalinu.  Það er dómstóla einna að kveða upp úr með það hvaða þýðingu umrædd lagabreyting hefur.

Ummæli lögfræðings ASÍ bera með sér að þar á bæ skilji menn ekki  enn eðli og samfélagslegan tilgang sjálboðaliðastarfs líkt og WWOOF  og gera engan greinarmun á slíku og vinnusambandi.   Í jafn þröngri túlkun felst útilokun á því að útlendingar taki þátt í fræðslu- og umhverfisverkefnum á Íslandi og í raun tilraun til að gera öll viðvik gesta á lögbýlum að markaðsvöru.    Dómurinn tiltekur að „margs konar sjálfboðaliðastörf til sjávar og sveita eiga sér langa sögu hér á landi, ekki síst þegar tímabundnar annir standa yfir”.  Hafa verður auk þess í huga að Móðir Jörð er fullmannað fyrirtæki og um það fjallað í dómnum.

Aðdragandi málsins

Tilurð málsins er sú að fram fór eftirlitsheimsókn í Vallanesi þann 9. júní 2016 þar sem mættu fulltrúar Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnunar og  framkvæmdastjóri AFL Starfsgreinafélags. Miklir eftirmálar urðu af þessari heimsókn og lögregla kvödd á staðinn auk þess  sem félagið og Eymundur sættu samdægurs neikvæðum og ótímabærum fréttaflutningi í fréttabréfi AFLS sem þaðan barst til annarra fjölmiðla á landsvísu.    Eymundur og Móðir Jörð leituðu til Persónuverndar sem gaf frá sér svohljóðandi álit: „ Ekki verður séð að birting AFLs Starfsgreinafélags á vefsíðu sinni á ljósmyndum, teknum af starfsmönnum og sjálfboðaliðum hjá Móður Jörð ehf.  í eftirlitsheimsókn hjá fyrirtækinu hinn 9. júní 2016, hafi verið heimil samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 8. þeirra laga, og samrýmst kröfu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna um sanngirni við vinnslu slíkra upplýsinga.“

WWOOF – alþjóðleg og viðurkennd samtök

Móðir Jörð og Eymundur hafa verið þátttakendur í alþjóðlegu umhverfis og fræðsluverkefni síðan árið 2001, WWOOF (World Wide Opportunities on Organic Farms) og er þar skráður á meðal 12.000 gestgjafa í meira en 100 löndum.  WWOOF er t.a.m. viðurkenndur vettvangur fyrir óformlega menntun í Evrópu , m.a. með samvinnu við Erasmus verkefnið.  Eitt af grunnskilyrðum WWOOF er að fólk mætist sem jafningjar í skammtímaheimsókn þar sem gestirnir gista á búunum og læra um lífræna ræktun en engar peningagreiðslur mega fara á milli aðila.  Í Evrópu er ekki litið á heimsóknir á vegum WWOOF sem vinnusamband enda hefur verkefnið allt önnur markmið og sambandið er jafningjasamband.

Viðurkennt starf

Við þá ákvörðun um að taka þátt í WWOOF á Íslandi hefur Móðir Jörð m.a. litið til erlendra fyrirmynda,  þá samfélagslegu þörf sem virðist vera á verkefninu og  viðurkenningu sem þetta starf á Íslandi hefur fengið í gegnum tíðina.

Starfsmaður WWOOF og tveir af þeim einstaklingum frá BNA sem kæran nær til báru vitni fyrir dómi. Í vitnisburði þeirra alla, og í fjölmörgum dómsskjölum sem félagið lagði fram, kom fram að starfsemin í Vallanesi er í fullu samræmi við leikreglur WWOOF  í öðrum löndum.  Þess má geta að almennt ríkir mikil ánægja með þátttöku Vallanes búsins í verkefninu, þetta var sýnt fram á í dómsskjölum.

Það kom einnig fram að ekkert gaf Ríkisskattstjóra tilefni til rannsóknar eða sérstakrar skoðunar á félaginu.  Móðir Jörð vill undirstrika að engar athugsemdir, fyrirspurnir eða leiðbeiningar hafa borist frá embættinu til félagsins í kjölfar eftirlitsheimsóknarinnar.

Vera kann að nauðsynlegt sé til framtíðar að stjórnvöld skerist í leikinn og taki af allan vafa um hvaða sjálfboðaliðastarf sé Íslendingum þóknanlegt og hvað ekki en Ísland á sér enga löggjöf um sjálfboðaliða og ekkert samtal hefur átt sér stað í samfélaginu um eðli þess og nauðsyn.  Mörg lönd hafa sett sér sérstakar reglur eða vegabréfsáritanir í því skyni að gefa kost  á samfélagslegum verkefnum svo ekki þurfi að koma til árekstra og deilna sem eru mjög kostnaðarsamar fyrir þjóðfélagið.  Móðir Jörð hefur í þessu ferli haft frumkvæði að samtali við ýmsar stofnanir, þ.m.t. ráðherra, og bent á leiðir til úrbóta. Við sjáum ekki á hvaða forsendum Íslandi ætti ekki að taka þátt í WWOOF eða öðrum álíka verkefnum sem á engan hátt geta skaðað íslenskan vinnumarkað heldur þvert á móti auðgað mannlíf og menningu auk þess að bæta umhverfið. Á þessum tímum er auk þess nauðsynlegt að deila reynslu og hvetja ungt fólk til að leggja fyrir sig sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Eymundur Magnússon

Eygló Björk Ólafsdóttir

- Back to products