Yfirlýsing

Yfirlýsing

Að tilefni fréttar AFLS og Austurfréttar um sjálfboðaliða í Vallanesi 10.6.2016

 

Vallanesi, 10. júní 2016

Í Vallanesi  fer fram lífræn ræktun á matjurtum og korni til manneldis.  Fjölbreytt ræktun fer fram  utandyra við náttúruleg skilyrði.  Í lífrænni ræktun í Vallanesi eru engin eiturefni notuð til að sporna við illgresi, notuð eru náttúruleg áburðarefni og ræktunin er tiltölulega lítið vélvædd og þar með mjög umhverfisvæn.  Þessi fylgir mikil vinna við að reita illgresi s.s. arfa og ná njóla upp úr ökrum og hefur búið notið krafta sjálfboðaliða frá WWOOF samtökunum (World wide opportunities on Organic Farms) til starfa við ræktunina í stuttan tíma í senn.  WWOOF er alþjóðlegur félagsskapur sem nær til landa allt frá Nýja Sjálandi til Íslands þar sem markmiðin eru að hjálpa bændum að byggja upp lífrænan landbúnað, leyfa ungu fólki að fræðast um lífræna ræktun og efla meðvitund um umhverfisvænan lífstíl, matarsóun og matvælaframleiðslu.  Íslendingar á ferðalagi erlendis hafa einnig notað þennan ferðamáta í öðrum löndum og teljum við að hér sé tækifæri á mikilvægum menningartengslum.

Einnig hefur búið notið starfskrafta nemenda í landbúnaðarskólum í Evrópu og í Bandaríkjunum þar sem gerð er krafa um að nemendur fái verklega reynslu s.s. í tengslum við garðyrkju eða umhverfisfræði.  Þar er um að ræða formlega samninga við skólana sem hafa haft frumkvæðið að þessu fyrirkomulagi.

Í gær heimsóttu Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóri og AFL á Austurlandi  Vallanesbúið í þeim tilgangi að kanna hverjir væru þar við störf, hvort samningar væru við starfsfólk og erlendir starfsmenn með kennitölur.  Í Vallanesi eru nú 4 starfsmenn, fyrir utan forráðamenn, og þar af eru 3 útlendingar.  Líkt og menn þekkja er  vegna mannfæðar  innlent starfsfólk ekki að finna á svæðinu.  Allt starfsfólk er með  undirritaða ráðningarsamninga.   Einn bíður enn eftir kennitölu en biðtíminn eftir kennitölum hefur verið 6-8 vikur í mörgum tilfelllum.  Starfsmanni AFLS á að vera það ljóst að undirritaðan starfssamning þarf til að sækja um kennitölu og frábiðjum við okkur dylgjur um að hér sé starfsfólk án samninga þó það gangi ekki með þá uppá vasann.

Ljóst er að umræða um eðli og tilgang sjálboðaliðastarfa er mjög skammt á veg komin hér á landi og bera ummæli fulltrúa AFLS því glöggt vitni.  Ummælin  lýsa miklum fordómum gagnvart því fólki sem um ræðir sem sótt hefur landið heim í þeim tilgangi að styðja við lífrænan landbúnað og kynnast í leiðinni landi og þjóð.  Margt af þessu fólki skilar sér til baka sem ferðamenn, námsmenn eða starfsmenn á Íslandi m.a. aftur til okkar.

Við viljum auk þess undirstrika að samtökin sem um ræðir eru viðurkennd sjálfboðaliðasamtök í þágu lífræns landbúnaðar og markmið þeirra eru samfélagslega viðurkennd  m.a. í löndunum í kringum okkur.  Skýrt er kveðið á um skyldur gestgjafa og sjálfboðaliða, sem og vinnufyrirkomulag, áður en til ferðalagsins kemur og dvelur fólkið í stuttan tíma (2-3 vikur að jafnaði) við störf við ræktunina og fegrun staðarins. Skýrt er tekið fram að sjálfboðaliðar eiga ekki að koma í staðinn fyrir launaða starfsmenn og er þess vel gætt enda gæðakröfur við framleiðslu matvæla þess eðlis.  Engar peningagreiðslur mega fara á milli sjálfboðaliða og gestgjafans skv reglum WWOOF, heldur leggur gestgjafi til fæði og húsnæði.  Sjálfboðaliðarnir standa sjálfir straum af ferðakostnaði til landsins enda er hér  um að ræða  fróðleiksfúsa ferðamenn en ekki fólk í atvinnuleit.  Hugtakið svört atvinnustarfsemi á því ekki við hér að nokkru leyti.

Þó einhverjar reglur þurfi enn að skýra á Íslandi er það eðlileg krafa  að slíkt sé rætt og mótað af yfirvegun.  Móðir Jörð í Vallanesi mun fara þess á leit við þar til bær  yfirvöld að starfsemi WWOOF  verði viðurkennd hér líkt og í öðrum löndum.  Samtökin veita mjög mikilvægan stuðning við lífrænan landbúnað  og  hvetur ungt fólk til að leggja fyrir sig lífræna ræktun, huga að heilbrigði umhverfis og temja sér umhverfisvænni lífsstíl.  Við hörmum að sjá jafn mikilvægt félag  á borð við AFL á  Austurlandi hafa uppi málflutning sem er jafn villandi og raun ber vitni og opinbera fordóma sína í garð gesta sem sækja Ísland heim með niðrandi ummælum líkt og í þessu tilfelli.  Auk þess gagnrýnum við mjög þau vinnubrögð AFLS að dreifa myndum til fjölmiðla af starfsfólki og sjálfboðaliðum á vettvangi án heimildar þeirra og hvetjum AFL til að biðja fólkið afsökunar.

Sjálfboðaliðastarf er almennt viðurkennt í flestum löndum og reglum hagað þannig að þær séu skýrar og almennt litið svo á að hér sé um að ræða virkjun ungs fólks til góðra verka og sjálfsagðan kafla í skóla lífsins.  Það væri mikill sjónarsviptir af þessu fólki á Íslandi og leitt ef Ísland getur ekki eins og önnur lönd boðið þá upplifun og lærdóm sem samtök á borð við WWOOF gefa kost á.   Við teljum mikilvægt að þessari tegund sjálfboðaliðastarfs sé fundinn farvegur innan kerfisins.

 

Sjá nánar www.wwoof.org.uk

www.wwoof.se

www.wwoof.de

www.wwoof.independents

 

Virðingarfyllst,

Eymundur Magnússon

Eygló Björk Ólafsdóttir

- Go back