Lífræn ræktun í Vallanesi
Í Vallanesi fer fram lífræn ræktun á korni og grænmeti, fullvinnsla og framleiðsla tilbúinna matvæla sem grundvallast á hráefni sem ræktað er á staðnum. Einnig er umfangsmikil skógrækt en á jörðinni hefur verið plantað fjölda trjáa og skjólbelta. Markmið framleiðslunnar er að rækta og nýta hráefni úr nánasta umhverfi staðarins, þróa bragð og rétti í takt við íslenska matvælahefð. Móðir Jörð er samnefnari fyrir hollustu og sælkeralínu okkar sem grundvallast á íslensku korni, grænmeti og jurtum.
Hreinleiki er lykilatriði í ræktun og framleiðslu okkar, ekki er notast við tilbúinn áburð eða eiturefni og matvörur okkar eru lausar við tilbúin hjálparefni, gervi- og litarefni. Manneldismarkmið eru okkur hugleikin og við leggjum áherslu á kynningu á notkun byggs til manneldis og leggjum síaukna áherslu á vinnslu þess og þróun rétta þar sem þetta úrvals heilkorn kemur við sögu.
Vörur okkar fást í matvöruverslunum um allt land undir vörumerkinu Móðir Jörð. Grænmetið okkar er útiræktað og árstíðabundið og þar sérhæfum við okkur í fjölbreyttum tegundum fyrir veitingahús og heilsuverslanir. Allar okkar vörur bera vottunarmerki Vottunarstofunnar Tún um alþjóðlega viðurkennda framleiðsluhætti um lífræna ræktun og framleiðslu.
Helstu vöruflokkar eru þessir;
– Bygg og heilhveiti
– Hrökkbrauð
– Þurrefnablöndur (grunnur að uppskriftum til baksturs og morgunverðar)
– Sultað grænmeti (chutney)
– Sultur og ber
– Sýrt grænmeti (þ.m.t. súrkál)
– Grænmetisréttir (frosin grænmetisbuff)
– Ferskt grænmeti

Eymundur Magnússon er búfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri árið 1973. Að loknu námi starfaði hann erlendis við búrekstur í Bretlandi, Svíþjóð og Noregi. Eymundur hóf búskap í Vallanesi árið 1979 með fjölskyldu sinni og lagði fyrst stund á kúabúskap og síðar grænmetis- og kornrækt til manneldis frá árinu 1985. Eymundur hlaut Landbúnaðarverðlaunin árið 2004 fyrir notkun á skjólbeltum og skógrækt í landbúnaði og heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumkvæði á sviði búskaparhátta og matvælamenningar árið 2011. Árið 2012 var hann tilnefndur til Umhverfisverðlauna Norðurlandanna m.a. fyrir að leggja “áherslu á mannlegan fjölbreytileika: ár hvert starfa hjá honum ungir sjálfboðaliðar og mynda þannig alþjóðlegan félagsskap sem er trúr jörðinni og lærir að sýna umhverfi sínu virðingu.“
Eygló Björk Ólafsdóttir er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur áralanga reynslu af matvörumarkaði hér heima og erlendis. Eygló er einn af stofnendum Slow Food hreyfingarinnar á Íslandi og er formaður VOR – Verndun og ræktun sem er félag lífrænna framleiðenda.
Móðir Jörð hlaut Fjöreggið árið 2015 sem veitt er árlega fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla og næringar. Verðlaunin veita Matvæla- og næringarfræðingafélag Íslands í samvinnu við Samtök iðnaðarins.